mánudagur, 12. nóvember 2012

Krnov

Þessi helgi er búin að vera heldur betur viðburðarík...á fimmtudaginn kom vinur minn frá Englandi sem er líka sjálfboðaliði hérna í Tékklandi til Prag. Að auki komu tveir vinir hans frá Englandi til Prag um helgina þannig ég og fleiri fórum að hitta þá. Á föstudeginum komu svo enn fleiri sjálfboðaliðar sem búa annarstaðar en í Prag og það endaði með því að við fórum 8 saman að skemmta okkur. Til að hafa langa sögu stutta þá komum við ekki heim fyrr en eftir 6 um morguninn. Að auki þá vorum við 4 sem sváfum í mínu fremur litla herbergi þannig það var svoldið troðið en mjög gaman!

Á laugardeginum keyrði ég síðan til Krnov með Radek (hann vinnur fyrir KFUM í Evrópu og er sá sem ég er mest í sambandi við í vinnunni) þar sem hann á heima. Keyrði hluta af leiðinni þangað en við komum til Krnov sem er nokkrum kílómetrum frá Póllensku landamærunum um 17:15. Klukkan 6 fórum við svo í fótbolta og blak eftir það borðuðum við kvöldmat og síðan lá leiðin á barinn að hitta vini hans.

Á sunnudeginum fór ég með fjölskyldunni hans í hádegismat á veitingastað þar sem ég fékk önd með knedlíky(e. dumplings, ís. hveitibolla?). Mjög algengt hérna í Tékklandi að borða kjöt með sósu og knedlíky. Síðan fórum við í smá göngutúr og fenguð okkur desert áður en við fórum í flugferð með vini hans. Flugvöllurinn var bara stórt tún þar sem var hægt að taka á loft og lenda á en við flugum um Krnov og svæðið í kring og enduðum með því að hann tók okkur í smá listflug (lét vélina dýfa sér síðan tók hann hringi og endaði með að láta hana klífa hratt), verð að viðurkenna að ég fékk svoldinn fiðring í magann og adrenalinkikk! Síðan fórum við aftur í fótbolta kl 5 en í þetta skipti voru bara karlar og flestir ungir. Endaði með tvær blöðrur á sitthvorum fætinum og kúlu á hnénu! Ekkert alvarlegt. :) Eftir það lá leiðin aftur á barinn með nokkrum af þeim sem voru í fótboltanum. Þeir kalla þetta víst "samráðsfundi". Hérna eru síðan nokkrar myndir úr flugvélinni.

Konan hans Radeks(man ekki hvað hún heitir :s), Pert og ég hjá flugvélinni

Útsýnið

Ég
Í dag keyrðum við síðan til baka en stoppuðum í Litomysl þar sem KFUM í Evrópu er með "þjálfunarmiðstöð" þar sem er aðstaða fyrir hópa til að gista og halda námskeið og þvíumlíkt. Ég keyrði síðan megnið af leiðinni frá Litomysl til Prag (að mestu leyti á hraðbraut þar sem er 130km hámarkshraði sem er mjög skrýtið að keyra á þegar maður er vanur að hámarkshraðinn sé 90). Í það heila mjög góð helgi og hlakka til að heimsækja Krnov aftur!

þriðjudagur, 30. október 2012

Seinustu vikur

Svoldið langt síðan ég bloggaði síðan og margt búið að gerast...ég ætla ekki að fara að skrifa það allt hér enda myndi það vera frekar langt þannig ef þið viljið heyra meira þá verðið þið bara að tala við mig persónulega. :)

Heimsáskorun KFUM

13. okt var heimsáskorun KFUM og auðvitað tók KFUM í Tékklandi þátt í henni. Ég hjálpaði til og það þýddi að ég þurfti að vakna kl 6:30 um morguninn til að vera kominn niður í miðbæ (Namesti Republiky eða eins og það myndi vera á íslensku "Lýðveldistorgið") þar sem við settum upp tjöld og körfuboltakörfu og fengum fólk til að skjóta. Þar skutu u.þ.b. 350 manns á milli 9 og 12 um morguninn. Eftir það hékk ég með Ten Sing Prag hópnum og þau fóru á nokkra staði og sungu nokkur lög úti á götu fyrir pening, það gekk mjög vel...eiginlega ótrúlega vel. Síðan kl 3 þá fórum við á seinni staðinn þar sem heimsáskorunin var haldin, svoldið frá miðbænum á stóru túni þar sem haldin var árleg flugdrekakeppni KFUM í Prag á sama tíma og fólki gafst kostur á að skjóta á körfu og síðan voru líka einhverjir skemmtikraftar og auðvitað matur. Þar skutu held ég um 200 manns. Þannig í allt skutu ca. 550 manns í Prag á körfu. Í heildina litið var þetta skemmtilegur dagur og læt hér fylgja eina mynd þar sem ég stend á Namesti Republiky.



Český Tensingový Festival "KŘIŽOVATKA" (Krossgata)

Um seinustu helgi fór ég á "landsmót" Ten Sing í Tékklandi þar sem allir Ten Sing hóparnir komu saman og sýndu hvað þau hafa verið að gera seinasta árið. Flestir hópar voru með dans og söngatriði. Það voru um 150 manns þarna og mjöög gaman þótt það hafi stundum verið erfitt að hafa ekki hugmynd um hvað er í gangi. :) Það var mikill metnaður lagður í atriðin og ótrúlega góðir söngvarar/söngkonur og tónlistarfólk yfir höfuð auk þess sem ímyndunaraflið á bak við sum atriðin var ótrúlegt.
Á fimmtudeginum lærðum við dansspor við Flashmob atriði sem Ten Sing Brno bjó til. Síðan fórum við aftur yfir það á föstudagsmorgninum og á föstudagseftirmiðdeginum fórum við niður í miðbæinn í Hradec Králové(bærinn þar sem landsmótið var haldið) og gerðum flashmobið...kemur örugglega myndband af því bráðum á Facebook. Síðan þurftu allir að velja tvö "progröm" þar sem var hægt að velja á milli kórs, dans, stomp og drama. Allir hóparnir gerðu síðan eitthvað atriði sem voru síðan sýnd á tónleikum á laugardagskvöldinu þar sem utanaðkomandi gátu komið og horft á. Síðan völdu allir líka þrjú workshop og þar var fullt af hlutum í boði. Allt í allt var þetta bara mjög skemmtilegt og öðruvísi heldur en ég hef upplifað hingað til. Hérna er síðan ein hópmynd af öllum sem voru þarna. (Ekki beint besta myndin af mér en ég er lengst til hægri ef þið eruð að leita)




Á morgun þá verð ég búinn að vera hérna í Tékklandi í 8 vikur...tíminn líður ótrúlega hratt en á sama tíma ótrúlega hægt...framundan er annars bara "vinnuferð" til Krnov sem er alveg austast í Tékklandi við pólsku landamærin.

miðvikudagur, 10. október 2012

Five Story Club

Loksins, loksins! Loksins er ég búinn að gera allt sem ég þarf að gera í sambandi við að koma mér yfir hérna eða svona allt sem ég veit um. Búinn að fara á lögreglustöðina og "láta vita af mér" og sýna fram á það að ég sé með sjúkratryggingu, búinn að fá bankareikning og kort o.s.frv. Spurning um að fara síðan að sækja um tékkneskan ríkisborgararétt bráðum...DJÓK! Ekki það að mér líki illa við Tékka þá líkar mér bara svo vel við gamla góða Ísland. :)

Annars þá var stuð um helgina, það komu fullt af sjálfboðaliðum til Prag út af hinu árlega EVS(European Voluntary Service) partýi í Prag. Það var gaman að sjá fullt af sjálfboðaliðum en leiðinlegt að sjá hvernig var gert að þessu partýi...það fór nefninlega allt fram á tékknesku! Þannig að flestir sjálfboðaliðarnir enduðu á að fara í bakherbergið. Eftir á var eitthvað diskó en okkur leist ekkert á það þannig við ákváðum að finna nýjan stað. Enduðum á "Five Story Club" sem er "stærsti tónlistarklúbbur í Mið-Evrópu". Eins og nafnið gefur að kynna er hann á fimm hæðum og hann er ekki af verri endanum! Á hverri hæð er mismunandi tónlistarstefna og mismunandi hvernig hann lítur út, það er t.d. ein hæð sem er frekar retro með diskógólfi! Þessi klúbbur er frekar dýr enda eiginlega bara túristar sem fara þangað og hann er staðsettur alveg upp við St. Charles Bridge sem er einn mesti túristastaður í Prag. Þetta var mjög skemmtilegt og alveg þess virði að prufa að fara þangað einu sinni!

Í gær fór ég síðan á tónleika með Ólafi Arnalds hérna í Prag, mjög flottir tónleikar verð ég að segja! Ég komst líka á gestalistann þannig ég borgaði ekki neitt, þeir ætluðu reyndar ekki að hleypa mér inn fyrst en síðan hringdi dyravörðurinn eitt símtal og þá komst ég inn. :) Ég þekki nefninlega systur hans úr KFUM og síðan erum við auðvitað báðir úr Mosó! Annars þá er ekkert sérstakt framundan nema auðvitað heimsáskorun KFUM á laugardaginn!

föstudagur, 5. október 2012

Lífið sem sjálfboðaliði

Ákvað að skella í eitt blogg með svona praktískum upplýsingum um hvernig lífið er hérna hjá mér.

Á morgnana þá vakna ég vanalega svona 1-1 og hálfum tíma áður en ég á að mæta í vinnuna og fæ mér að borða og fer í sturtu vanalega. Síðan legg ég af stað í vinnuna ca. 40 mín áður en ég á að mæta og labba út á stoppistöðina Blatiny sem er hérna rétt hjá og tek þar sporvagn niður í bæ. Síðan þarf ég að skipta yfir í neðanjarðarlestina og tek hana restina af leiðinni. Skrifstofan sem ég er að vinna í er á 4. hæð eða 6. hæð ef taldar eru allar hæðir. Þar vinn ég í nokkra klukkutíma eða þangað til ég hef ekkert að gera (sem er mjög oft þessa dagana). Síðan er mismunandi eftir dögum hvað ég geri, á þriðjudögum og fimmtudögum er ég á tungumálanámskeiði frá 5-6:30. Hina dagana er ég laus (eins og er) og frjáls til að gera það sem ég vill.

Í sambandi við peninga þá fæ ég rúmar 600kr íslenskar á dag til þess að kaupa mat...og ég fæ engann mat í vinnunni þannig þetta er allur matur, morgunmatur, hádegismatur, kvöldmatur og allt þar á milli. Ekki mikið ég veit og jafnvel þótt maturinn sé almennt ódýrari hérna heldur en heima, gætuð svona nokkurnveginn miðað við að þið fengjuð rúmar 1000kr á dag til að kaupa ykkur mat...fyrir allan daginn...
Að auki fæ ég tæpar 14 þús íslenskar á mánuði í vasapening sem ætti eftir öllu EKKI að fara í mat en hingað til hefur það verið tilhneigingin...þannig í hverjum mánuði fæ ég um það bil 33 þús íslenskar fyrir mat og vasapening. Ég fæ síðan aukalega fyrir utan þetta pening fyrir almenningssamgöngur.

Þið sjáið það strax að ég er aldrei að fara að lifa neinu lúxuslíferni þetta árið en þetta er bara skemmtilegt hingað til! Á eftir og á morgun fáum við síðan 4 gesti sem munu gista hérna fram á sunnudag. Þetta eru allt sjálfboðaliðar sem ég kynntist í seinustu viku og eru að koma til Prag fyrir árlega EVS partýið sem verður á morgun. :)

mánudagur, 1. október 2012

Statek Vystice

Ég kom heim í gær eftir að hafa eytt seinustu 6 dögum í Statek Vystice sem er sveitabær nálægt Olesnik suður af Prag. Þar hitti ég ca. 20 aðra sjálfboðaliða sem eru í Tékklandi og þar af 7 eða 8 sem búa í Prag. Þarna var fólk frá Spáni, Ítalíu, Portúgal, Frakklandi, Póllandi, Englandi, Norður Írlandi, Danmörku, Þýskalandi, Rússlandi, Slóvakíu og Hvíta Rússlandi auk Íslands auðvitað.

Dagurinn byrjaði með morgunmat á milli 8 og 9 og síðan byrjaði dagskrá alltaf kl 9:30 til ca. 11 þegar kom smá kaffipása og síðan haldið áfram til 1 þegar kom hádegismatur. Fengum alltaf 2 tíma í hádegismat þannig það var oftast gert eitthvað í hádegishléinu (hjá mér var það oftast smá fótbolti eða frisbí). Kl 3 byrjaði síðan dagskráin aftur og stóð vanalega yfir svona 1 og hálfan tíma áður en það kom stutt pása og síðan haldið áfram til hálf 7-7 þegar kom kvöldmatur. Eftir kvöldmat var síðan kannski 1-2 tíma dagskrá. Fengum ágætis frítíma sem var líka mjög gott, í heild sinni fannst mér hópurinn ná mjög vel saman. :)

Við gerðum ýmislegt þarna...fórum t.d. í smá þrautabraut sem var út í skógi sem samanstóð aðallega af reipisþrautum fyrir einstaklinga og síðan 3 hópþrautir. Það var köngulóavefur(þeir sem voru með mér á Ung Uge muna kannski eftir honum úr gönguferðinni) þar sem er búið að setja upp einskonar köngulóarvef úr reipum á milli tveggja trjáa og þar þarf maður að komast í gegn án þess að snerta og aðeins einn má fara í gegnum hvert gat. Síðan var hjólbarði sem var búið að festa upp í ca. 1 og hálfs metra hæð og þar þurfti maður að komast í gegn líka en mátti snerta hjólbarðann. Síðan síðast en ekki síst var einskonar stórt tréhjól sem var að mínu mati skemmtilegast. Við fórum tvisvar í þessar þrautir, í seinna skiptið voru 6 sem voru með einhverskonar "fötlun", 2 blindir, 2 með bundnar hendur og 2 sem máttu ekki tala. Þetta gerði þrautirnar í raun mun erfiðari en samt voru þær eiginlega bara jafn léttar og 2 dögum áður því við vorum búin að gera þær einu sinni áður. Þarna þurftum við að tala saman, vinna saman og ekki síst að treysta hvort öðru. Ég sé hvort það eigi ekki einhver myndir frá þessum þrautum því það er erfitt að lýsa þeim!

Á föstudeginum fórum við í bæjarferð þar sem flestir fóru til Cesky Krumlov sem er mjög fallegur bær en aðallega túristastaður og sumir fóru til Cesky Budejovice sem er stærsta borgin á svæðinu (ca. 100 þús íbúar). Er með nokkrar myndir þaðan sem ég mun setja á Facebook bráðlega. :) Fórum samt ekki svo auðveldlega út úr því að mega bara fara um bæinn og skoða heldur fengum við 5 þrautir og þurftum að leysa allavega 2. Þrautirnar voru svona:
  1. Take a picture of an opened fridge of a normal Czech family.
  2. Make and record an interview with a local person on a theme you are interested in.
  3. Draw a portrait and get Facebook contact of a local person of your age.
  4. Visit three cultural institutions in the town.
  5. Find a place, spend there one hour alone, observe what is happening, make a report about it.
Ekki beint auðveldustu þrautirnar sem maður getur fundið sérstaklega í bæ þar sem eru næstum því bara túristar! Allavega ef þú ert nálægt miðbænum/kastalanum. Það var einn hópur sem fékk að taka mynd af ísskápi hjá gamalli konu sem talaði þýsku og það voru nokkrir í viðbót sem gerðu heiðarlega tilraun til að fá að taka mynd en tókst það ekki...veit ekki hvað ég myndi halda ef einhver bankaði hjá mér og biði um að fá að taka mynd af því sem er í ísskápnum mínum...en þetta var samt mjög skemmtilegt og flestallir náðu að klára þetta á þeim tíma sem við höfðum (ca. 4 klst) og skoða markaðinn, kastalann o.fl..

Síðasta daginn bjuggum við síðan til báta úr greinum o.fl. og kerti sem við settum blað með einni ósk fyrir dvöl okkar hérna í Tékklandi og um kvöldið fórum við að vatninu og kveiktum á kertunum og settum bátana út á vatn.
Annars þá snérist þjálfunin mikið um praktísk atriði eins og hvað er Evrópa Unga Fólksins og síðan lærðum við um sögu Tékklands og tékkneska menningu. Lærðum líka meiri tékknesku og mikið reynt að fá okkur til þess að tjá okkur án orða heldur með tónlist eða öðru. Hún snérist auðvitað líka mikið um leiki og að blanda saman leikjum og lærdómi.

Að lokum þá var auðvitað svoldið um frítíma á kvöldin þar sem var mikið spilað, spjallað og drukkið bjór. Eitt kvöld var líka sýnd bíómynd sem ég horfði reyndar bara á í nokkrar mínútur og skildi hvorki upp né niður í(tallaus mynd). Þarna held ég að ég hafi kynnst allavega nokkrum sem ég mun halda sambandi við í gegnum dvöl mína hérna í Tékklandi og góð leið til þess að heimsækja aðra staði hérna. Það er alveg frekar ódýrt að taka rútu/lest hérna...kostar kannski svona 500CZK eða minna fram og til baka á flesta staði frá Prag.

Annars þá er ég bara búinn að liggja heima í dag með hita, kvef, hálsbólgu og hausverk...ekki gaman! Auk þess sem ég er með ca. 10 moskítóbit. Þannig í dag hefur það bara verið snýtubréf, te og hunang! Vonandi verð ég orðinn frískur á morgun eða í seinasta lagi á miðvikudaginn.

miðvikudagur, 26. september 2012

Ferðalagið mikla


Byrjaði allt með því að við fórum af stað í átt að Roztyly þar sem við áttum að taka rútuna okkar til Olesnik. Það gekk vel og við vorum komin þangað kl 13:30 og rútan okkar átti að fara kl 13:45, fórum inn á miðasöluna og ætluðum að kaupa miða en þurftum að bíða í röð í 10 mínútur...leist ekkert á þetta og var farinn að kíkja ansi oft á klukkuna síðan þegar röðin kom loksins að okkur þá var afgreiðslukonan bara eitthvað að dúlla sér að laga eitthvað til! Ekki bætti það úr skák og þegar hún loksins gaf sér færi á að tala við okkur sagði hún okkur að þetta væri ekki miðasala fyrir langferðir heldur þurftum við að fara á annan stað! Fórum þangað og þá var rútan alveg að fara en við vissum ekki hvar hún var, reyndum að spyrja konuna í miðasölunni en hún sagði bara „hún er alveg að fara“ og síðan 2 mín seinna „ó, hún er farinn.“ „Þið verðið að taka aðra rútu eftir 2½ klst en hún fer ekki þangað sem þið viljið fara heldur verðið þið að taka aðra rútu þar en hún fer samt ekki alveg jafn langt og þið viljið fara.“ Frábært...en allt í lagi við biðum þarna í 2 tíma og náðum næstu rútu...tók 3 klukkutíma og við vorum orðin 2 tímum of sein, þar biðum við síðan í 30 mín og það komu 2 rútur/strætóar og nei...enginn þeirra kannaðist við að vera að fara til Olesnik! Þá brugðum við á það ráð að hringja í þá sem eru að halda þjálfunina og á endanum vorum við sótt á stoppistöðina, sem betur fer!

Þegar við komum loksins á svæðið þá þurftum við að finna okkur herbergi sem var laust og síðan fengum við að borða. Þarna voru allir búnir að kynnast en alltaf jafn gaman að segja fólki að maður komi frá Íslandi, fæ nánast alltaf „Í alvöru?“ „Vá, mig langar svo að fara þangað!“ . Eftir að við borðuðum var varðeldur og þar sátum við í góðan klukkutíma allavega og vorum að deila því hvernig við komum hingað, hvort sem það var praktískt eins og flugferðin eða lestarferðin eða hvað varð þess valdur að við völdum Tékkland.

Á endanum var þetta mjög góður dagur og mjög góð reynsla...týnd í Tékklandi í fyrsta skipti. Fengum líka að upplifa hvernig kommúnisminn hefur ennþá mikil áhrif á fólk hérna þótt að hann sé löngu farinn, langtímaáhrifin eru ennþá til staðar.

mánudagur, 24. september 2012

Austur-Evrópsk matargerð

Á fimmtudaginn fór ég í bankann til þess að stofna bankareikning...það væri ekki frásögu færandi nema vegna þess hversu langan tíma það tók! Var í bankanum í 2 klst og ég þarf samt að fara tvisvar í viðbót í bankann til þess að geta fengið bankareikning...í fyrsta lagi þá er það út af því að Ísland er ekki í Evrópusambandinu þá þarf bankastjórinn sjálfur að gefa mér leyfi til þess að stofna reikning og út af því að ökuskírteinið mitt er á leiðinni til mín í pósti (sótti um fullnaðarskírteini 12 dögum áður en ég fór út en það kom bara í seinustu viku) og ég þarf tvenn skilríki. Þarf líka að fara til löggunar og sýna þeim að ég sé með sjúkratryggingu og gefa þeim einhverjar upplýsingar þannig mér verði ekki hent úr landi (já, þeir senda fólk úr landi ef það eru ekki sjúkratryggt hérna).

Annars þá hefur það sem ég hef smakkað hingað til af Austur-Evrópskri matargerð ekkert heillað mig upp úr skónum! Kartöflupönnukökurnar eru ágætar en flestir kvöldverðir sem ég hef smakkað hafa ekki verið neitt sérstakir...t.d. hakk og hrísgrjón soðið í kálblaði...síðan á maður helst að borða það með fullt af sýrðum rjóma, sem er annað sem ég hef tekið eftir hérna...það er sýrður rjómi með öllu! Alltaf sýrður rjómi...og mér finnst sýrður rjómi ekki góður...:/ og já líka bókhveiti með kjöti er víst mjög vinsæll réttur...ég held ég muni ekki venjast þessari Austur-Evrópsku matargerð, myndi frekar vilja borða soðna ýsu alla daga! (Eða svona næstum því)

Ég fór líka í Ten Sing Praha á fimmtudaginn, náði reyndar bara seinasta laginu út af því það er á sama tíma og ég er á tungumálanámskeiðinu...:S en það var fínt...allavega þá er búið að plata mig til þess að fara á landsmót Ten Sing eftir mánuð þar sem ég verð mögulega að hjálpa eitthvað til...eða bara sem þátttakandi, hvort sem verður þá held ég það verði gott tækifæri til þess að kynnast fólki. :)

Í dag fór ég í vinnuna þar sem allt netið lá niðri! Frekar pirrandi þegar það eina sem ég gat gert í dag fól í sér að ég þurfti að nota netið þannig ég fór í hálfgerða fýluferð í vinnuna, eyddi meiri tíma að ferðast til og frá vinnu heldur en í vinnunni...þar sem ég fór heim til þess að eiga möguleika á því að vinna eitthvað! Hvað með það þá mun ég ekki þurfa að mæta í vinnuna restina af vikunni þar sem ég er að fara út úr bænum á morgun, fer til Olešník sem er einhverja 150km suður af Prag. Hlakka til að hitta fleiri sjálfboðaliða hérna og hvað helst eitthvað fólk sem er ekki af Austur-Evrópskum uppruna! :)
Þar sem það er hinsvegar eitthvað takmarkað netsamband þar þá býst ég ekki við því að blogga aftur fyrr en ég kem heim á sunnudaginn en ég lofa að blogga um þjálfunina þá. :)

P.s. ég kann núna að telja upp á 20 á tékknesku! ;)